Bjór-Coopers

Leiðbeiningar fyrir samsett bjórgerðarefni

Sótthreinsið allt sem kemst í snertingu við bjórgerðarefnið (áhöld, gerjunarílát og flöskur) áður en hafist er handa. Notið IP-5 klórsóda.

Hellið innihaldi dósarinnar í gerjunarílátið. Gott er að leggja dósina fyrst í heitt vatn til að mýkja innihaldið og skola hana síðan að innan með sjóðandi vatni. Ekki nota hitaveituvatn! Bætið 1kg af kornsykri útí. Hellið 2 - 3 lítrum af sjóðandi vatni samanvið og hrærið vel til að leysa upp.

Bætið köldu vatni út í þar til heildarmagn nær 25 lítrum. Þá ætti hitastig lögunarinnar að vera ca. 20-25°C. Ef hitastigið er hærra, bíðið þar til það hefur náð niður fyrir 25°C. Sykurmæling á þessu stigi ætti að vera ca. 1040 (þó mismunandi eftir tegundum). Stráið gerinu yfir lögunina. Komið vatnsfylltum loftlás fyrir á loki gerjunarílátsins og leyfið innihaldinu að gerjast í 5-7 daga við 18 - 25°C umhverfishita.

Gerjun telst vera hætt þegar sykurmæling sýnir sömu tölu í 2 sólarhringa. Þetta er yfirleitt á bilinu 1010 - 1005 (mismunandi eftir tegundum). Fleytið bjórnum nú á annan hreinan kút. Hrærið 160g af kornsykri samanvið, og fleytið síðan á flöskur. Einnig er hægt að setja sykurinn út í hverja flösku fyrir sig. Í því tilfelli væri sett 1 tsk fyrir hvern lítra. Lokið nú flöskunum og látið standa við stofuhita í 5 - 7 daga meðan eftirgerjun fer fram.

Gott er að láta bjórinn lagerast í 15 - 30 daga til viðbótar en við það batnar bragðið til muna.

 
Prentvæn útgáfa